20. eða 21. öld í Straumi?

FRAM yfir miðja síðustu öld var bágt ástand á ýmsum sviðum íslensks þjóðlífs. Margir voru án vinnu og þeir sem höfðu einhverja vinnu náðu ekki alltaf að fæða sig og klæða. Á þeim tíma tilheyrðum við þriðja heiminum. Við slíkar aðstæður er fólk tilbúið að fórna miklu fyrir trygga atvinnu og auknar tekjur. Þá voru flestir Íslendingar tilbúnir til að reisa síldarverksmiðju eða sementsverksmiðju inni í miðjum bæ ef það mætti verða til þess að bæta hag íbúanna. Á þessum árum fluttist fólk meira að segja til slíkra staða þrátt fyrir þá mengun, óþrif og lýti, sem stóriðju fylgir.

Milli 1960 og ’70, þegar ákveðið var að Ísal fengi að reisa 33.000 tonna álver í Straumi, var sú hugsun enn ríkjandi að flest væri á sig leggjandi fyrir aukna atvinnumöguleika. Þó voru sumir íbúar á móti og verksmiðjan var reist utan bæjarmarka, í hvarfi frá hinum undurfagra Hafnarfirði. Heldur meiri andstaða var við stækkun álversins upp í 200.000 tonn, enda Hafnfirðingar þá orðnir býsna stöndugir og atvinnuleysi nánast óþekkt.

Nú, þegar uppi eru áform um að stækka álverið í Straumi upp í 440.000 tonna ársframleiðslu hefur íbúum Hafnarfjarðar fjölgað mjög mikið og hagur þeirra enn batnað. Byggðin nær þegar meðfram hlið álversins og framtíðarbyggingarland bæjarfélagsins er austan og sunnan verksmiðjunnar. Álverksmiðja Ísals stefnir því hraðbyri inn í miðju Hafnarfjarðarbæjar. Við lifum á nýrri öld og fólk flyst ekki lengur til slíkra svæða og nú er jafnvel hætta á að "Jón á Völlunum" flytjist burtu ef af stækkuninni verður.

Enn ríkir sama eymdin víða í þriðja heims löndunum og þær þjóðir eru tilbúnar að fórna sínu dýrmæta umhverfi undir stóriðju, til að bæta atvinnuástandið og afstýra hungri. Lái þeim það hver sem vill. Núorðið tilheyrum við Íslendingar hins vegar ríkustu þjóðum heims og þurfum engu að fórna fyrir trygga atvinnu og góð lífskjör. Langflest okkar hafa það allt nú þegar.

Ég giska á að um 1950 hafi innan við 5% þjóðarinnar verið á móti stóriðju. Skoðanakannanir sýna að nú er um helmingur íbúa á móti þessari umbeðnu stækkun álversins í Straumi. Er mjög erfitt að sjá hvert þessi þróun stefnir? Ég held að það þurfi engan spámann til að sjá að ef af stækkun verður, munu börn okkar og barnabörn í vaxandi mæli sjá eftir þeirri ákvörðun. En þá verður það orðið of seint, börnin okkar munu engu geta breytt.

Höfundur er sjávarlíffræðingur.


Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband